*

miðvikudagur, 4. ágúst 2021
Erlent 14. júlí 2021 17:58

Fara í hart við Flórída

Norwegian Cruise Lines hefur höfðað mál gegn Flórída vegna laga ríkisins sem meina fyrirtækjum að spyrja um bólusetningar.

Snær Snæbjörnsson
Norwegian Cruise Lines telur bannið brjóta gegn stjórnarskrá Bandaríkjanna.
epa

Skemmtiferðaskiptafélagið Norwegian Cruise Lines hefur höfðað mál á hendur Flórídaríki í Bandaríkjunum vegna laga ríkisins sem meina fyrirtækjum að krefjast þess að viðskiptavinir þeirra séu bólusettir. New York Times greinir frá.

Lögin banna fyrirtækjum að spyrja viðskiptavini sína hvort þeir séu bólusettir og hægt verður að sekta fyrirtæki um 5 þúsund dollara fyrir hvert einasta brot. Ríkisstjóri Flórída, repúblikaninn Ron DeSantis, hefur hrósað löggjöfinni í hástert. DeSantis hefur barist ötullega gegn því að fyrirtæki fái að krefjast þess að viðskiptavinir þeirra séu bólusettir og telur það fela í sér mismunun.

Norwegian telur að bann ríkisins standist ekki þar sem að það brjóti gegn alríkislögum og stjórnarskrá Bandaríkjanna. Þar á meðal fyrsta viðauka stjórnarskráarinnar um frelsi til tjáningar. Einnig er bent á að krafa um bólusetningu sé ekki eingöngu vinsæl meðal fyrirtækisins heldur einnig viðskiptavina þess. 

Flórída er mikilvæg miðstöð fyrir skemmtiferðaskip og er félagið með höfuðstöðvar sínar þar. Þá hafði félagið vonast til þess að hefja aftur starfsemi um miðjan ágústmánuð en áform ríkisins gætu nú hindrað það. Líkt og flest önnur ferðaþjónustufyrirtæki hefur skemmtiferðaskipabransinn orðið illa fyrir barðinu á faraldrinum.

Viðskiptavinum skemmtiferðaskipa fækkaði um 80% á síðasta ári miðað við árið 2019. Þá hafa Carnival Corp., Royal Caribbean og Norwegian, þrjú stærstu skemmtiferðaskipafélög heims, tapað um 900 milljónum dollara samanlagt í hverjum einasta mánuði frá mars á síðasta ári samkvæmt skýrslu lánshæfismatsfélagins Moody's.