Þetta er í raun nýsköpun byggð á gömlum grunni sem mun færa ullariðnaðinn inn í framtíðina, en um leið bylting fyrir útivistarfólk sem vill vistvænni kost og góða virkni við mismunandi aðstæður "; segir Aðalsteinn Pálsson framkvæmdastjóri Icewear um nýju útivistarlínu Icewear sem einangruð er með afgangsull sem áður nýttist ekki í prjónaband.

Auk þess bendir Aðalsteinn á að þessi nýsköpun gæti orðið til þess að búhættir íslenskra bænda breytist og að til lengri tíma skapist góð skilyrði til ullarræktunar. Þetta gæti leitt til þess að arðbærni bænda myndi aukast, bæði með aukinni nýtingu en einnig hærra afurðarverði samfara aukinni eftirspurn, þar sem vaxtamöguleikarnir eru gríðarlegir.

Unnsteinn Snorri Snorrason, verkefnastjóri sauðfjárræktar hjá Bændasamtökum Íslands segir endurkomu ullarinnar í fataiðnaði framundan og fagnar því að íslenskt fyrirtæki með íslenskt hráefni leiði þróunina.

Samstarf við Ístex

Icewear hefur þróað vörulínu í samstarfi við ullarvinnslufyrirtækið Ístex sem framleiðir Lopiloft ull, en Ístex er að mestu í eigu bænda. Sú mikla vinna og fjárfesting hefur nú borið ávöxt og fyrstu vörurnar komu nú á markað í dag, 1. desember. „ Það hefur verið skemmtilegt að vinna þetta verkefni með Icewear. Dugnaðarfólk sem hefur mikla trú á íslensku ullinni og hikar ekki við að koma hlutunum í verk. "; segir Sigurður Sævar Gunnarsson framkvæmdastjóri Ístex.

Icewear er eini aðilinn í heiminum sem framleiðir útivistarlínu sem einangruð er með íslenskri ull með þessum hætti. Ullareinangrun af þessu tagi er nýtt fyrirbæri í einangrun á útivistarfatnaði, en leiðandi fyrirtæki á erlendum markaði eru byrjuð að reyna fyrir sér á þessum markaði en ullarblöndur þeirra innihalda mun lægra hlutfall af ull. Í gegnum þróunarferli Icewear með Ístex hefur niðurstaðan verið sú að notast við 80% íslenska ull í einangrun fyrstu línu Icewear en þó mismunandi eftir notkunareiginleikum.

Icewear
Icewear