Rauntímagreiðslumiðlun er eitthvað sem Íslendingar hafa átt að venjast frá árinu 1986. Sú er þó langt því frá raunin víðast hvar í heiminum. Friðrik Þór Snorrason, forstjóri RB, ræddi þetta of fleira í viðtali í Viðskiptablaðinu í vikunni. Hægt er að nálgast annað brot úr viðtalinu hér .

„Það þróaðist einhverra hluta vegna svona snemma hérna og líklega hefur smæð markaðarins og sú staðreynd að allir samnýttu helstu grunnkerfi skipt meginmáli. Næsta Evrópuland var svo Bretland 2008 en þó er það ennþá smátt í sniðum þar. Á síðustu þremur árum hafa nokkur ríki innan Evrópusambandsins tekið slík kerfi í notkun en notkun þeirra er skammt á veg komin. Þegar fyrstu netbankarnir komu á Íslandi var svo sama virkni þar – þú gast fært fjármuni frá þínum reikningi yfir til einhvers annars og okkur Íslendingum fannst það algjörlega eðlilegt. Þegar þú flytur svo til útlanda í einhvern tíma klórarðu þér í hausnum yfir því hvers vegna þetta tekur nokkra daga.“

Í viðtalinu ræddi Friðrik þær breytingar sem eru að verða á fjármálamörkuðum. Eftir þessar breytingar, hvert stefnum við þá í þessum geira?

„Í tengslum við innleiðingu á nýju grunnkerfum RB hefur verið búið til nýtt þjónustu- og gagnalag í kringum kerfin, sem nefnast Torg RB, sem verður framtíðar tengilagið fyrir fjármálamarkaðinn. Í raun er búið að búa til „API“ (e. Application Programming Interface) fyrir allt fjármálakerfið sem eru tækniskil á milli grunnkerfa og kerfa bankanna. Torgin er t.d. hægt er að nýta til að kalla eftir reikningsyfirlitum, opna og loka reikning, o.s.frv. Í raun knýja slíkir „apar“ áfram öll smáforritin sem eru í snjallsímum notenda í dag. Það eru nokkrar spurningar sem þarf að spyrja sig í kringum það, til dæmis hversu opið á það að vera? Það er hægt að þróa þetta þannig að þetta verði dálítið æðakerfi Íslands fyrir tengingar inn í allskonar hluti – Hagstofuna, Ríkisskattstjóra og svo framvegis. Þetta snýst um að staðla þjónustur til að tryggja öryggi og einfaldleika. Þetta þarf að taka áfram með einhverjum hætti þannig að það verði ekki til ósamstæðar bólur um allt. Ég spái því að sú staðreynd að þetta nýja tengilag nái yfir allt fjármálakerfið á Íslandi verði jafn mikilvæg og einstök breyting og rauntímagreiðslumiðlunin var á sínum tíma í alþjóðlegu samhengi.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .