*

mánudagur, 6. apríl 2020
Erlent 8. maí 2016 11:25

Nota ekki kjarnavopn að fyrra bragði

Norður-Kórea mun ekki nota kjarnorkuvopn nema að brotið verði á sjálfsákvörðunarrétti þjóðarinnar, segir Kim Jong Un.

Ritstjórn
european pressphoto agency

Norður-Kórea mun ekki notast við kjarnavopn að fyrra bragði, segir Kim Jong Un, leiðtogi þjóðarinnar. Ekki fyrr en aðrar þjóðir hyggjast brjóta á sjálfsákvörðunarrétti Norður-Kóreu mun her þjóðarinnar grípa til kjarnavopna. Frá þessu er sagt í ríkismiðlum kommúnistaríkisins, KCNA.

Ríkið setti sér þá nýja fimm ára áætlun fyrir hagkerfi þjóðarinnar, en verandi kommúnistaríki er öllum iðnaði og verslun miðstýrt. Áætlunin sem um ræðir mun hafa orkuþróun í forgrunni ásamt kjarnavopnavæðingu, en mjög lítill hluti þjóðarinnar hefur öruggan aðgang að rafmagni.

Landsþing verkamannaflokks Norður-Kóreu var sett á síðasta föstudag og stendur nú enn yfir, en þetta er í fyrsta skiptið á síðustu þrjátíu og sex árum sem þingið hefur verið haldið. Suður-kóreskir fjölmiðlar halda því fram að þingið sé haldið nú til þess að styrkja stöðu Kim Jong Un.