Hafnasamband Íslands gerir rammasamning við Klappir grænar lausnir um innleiðingu umhverfisstjórnunarkerfis fyrir allar hafnir sambandsins

Þann 27. september síðastliðinn undirrituðu Hafnasambandið og Klappir grænar lausnir samning um innleiðingu umhverfisstjórnunarkerfis Klappa, Klappir PortMaster, sem mun standa öllum höfnum sambandsins til boða.

Samhliða hafa Akureyrarhöfn, Faxaflóahafnir, Hafnarfjarðarhöfn, Ísafjarðarhöfn og Vestmannaeyjahöfn undirritað þjónustusamninga við Klappir um upptöku kerfisins.

Stafrænt PortMaster kerfi Klappa tekur við tilkynningum skipa um komur og brottfarir, skil á sorpi, olíumenguðum úrgangi, skólpi og öðrum úrgangi og skilar með sjálfvirkum hætti tilkynningum til viðkomandi yfirvalda, svo sem til Umhverfisstofnunar.

Auðvelt er að samþætta Klappir PortMaster við aðrar hugbúnaðarlausnir Klappa og halda þannig utan um umhverfismál hafna á heildstæðan hátt hvað varðar t.d. sorphirðu, sorpflokkun og skil þar á, auk eldsneytis- og orkunotkunar hafna.

Samningurinn ýtir úr vör byltingu í því hversu gaumgæfilega má halda utan um umhverfismál í höfnum landsins og markar því mikið heillaspor á vegferð okkar sem þjóðar í átt vistvænni umgengnisvenjum gagnvart hafinu.