Nýsköpunarfyrirtækið Kerecis á Ísafirði hefur aukið hlutafé sitt um eina milljón dollara, eða rúmlega hundrað milljónir íslenskra króna, til að fylgja eftir dreifingarsamningi við Bretland og Miðausturlönd með markaðssetningu og halda áfram vinnu við vöruþróun og prófanir. Greint er frá þessu á vef Bæjarins besta .

Fyrirtækið er að þróa nokkrar vörur, sem byggðar eru á MariGen Omega3 tækni þess. Sú sem er lengst komin kallast Marigen Wound og er ætluð til meðhöndlunar á þrálátum sárum. Fyrirtækið er með markaðsleyfi í Evrópu en er að vinna í klínískum prófunum til að afla markaðsleyfis í Bandaríkjunum.

Guðmundur F. Sigurjónsson, stjórnarformaður Kerecis segir að bandaríski markaðurinn sé sá stærsti á þessu sviði og veltir um um 600 milljónum dollara á ári.

Í dag er reynt að halda þrálátum sárum passlega rökum og hafa lífræn efni rutt sér til rúms sem bæta eiga umhverfið fyrir húðfrumurnar. Hingað til hefur aðallega verið notaður vefur úr svínum og mannslíkum en í Marigen Wound er notað þorskroð.