Bandaríkjamaðurinn Thomas W. Lucas Jr. var á föstudag dæmdur sekur um að hafa svikið um fjórtán milljónir dala út úr 50 fjárfestum með því að ljúga því að þeim að byggja ætti nýjan Disney skemmtigarð í Norður-Texas.

Hélt Lucas því fram að hann byggi yfir upplýsingum innan úr Disney samstæðunni um að byggja ætti "Frontier Disney Dallas-Fort Worth" skemmtigarðinn og fékk fjárfesta til að kaupa land á svæðinu sem garðurinn átti að rísa á. Ætluðu fjárfestarnir svo að selja Disney landið þegar að byggingu garðsins kæmi.

Disney fyrirtækið hefur ítrekað neitað að ætla að byggja garð í Norður Texas.

Fjárfestarnir töpuðu, eins og áður segir, um 14 milljónum dala, en Lucas á að hafa haft um hálfa milljón dala upp úr krafsins í formi þóknana og annarra gjalda sem milliliður í landakaupunum.