Haraldur Ólafsson, forstöðumaður fyrirtækjasviðs Ergo segir hátt verðlag á notuðum bílum hafi orðið þess valdandi að félagið hafi ekki hækkað hámark lánshlutfalls þó að það sé heimilt.

„Markaður með notaða bíla er að leiðréttast. Verðið var of hátt og allir aðilar á markaði voru sammála um að það myndi lækka á einhverjum tímapunkti,“ segir Haraldur í Morgunblaðinu, en hann segir verðlag notaðra bíla fara lækkandi. „Það sem hefur gerst er að bílarnir koma jafnar inn yfir árið þannig að þrýstingurinn hefur minnkað. Af því sögðu erum við enn að sjá mesta þungann koma inn á haustin.“

Ástæðan er að bílaleigur hafa verið að kaupa megnið af nýjum bílum sem komu til landsins en sú þróun hefur verið að snúast við undanfarið og hlutfall einstaklinga og fyrirtækja sem kaupa nýja bíla hefur stækkað. En mikil kaup bílaleiga fyrir sumarvertíð í ferðamennsku hefur leitt til þess að talsvert magn nýlegra bíla komi á markað á haustin.

„Maður sá í útlánatölum hjá okkur að neytendur voru byrjaðir að bíða eftir að haustbílarnir kæmu á markaðinn.“