Sænskir fjölmiðlar greindu frá því í dag að grunsemdir væru um að Christen Ager Hanssen, hin norski eigandi Fly Me, hefði notað fé úr sjóðum félagsins til hlutabréfakaupa, meðal annars til að kaupa Pálma Haraldsson út úr félaginu.

Að því er kemur fram í frétt á vef Dagens Industri virðast 40 milljónir sænskra króna eða um 400 milljónir íslenskra króna hafa horfið úr sjóðum félagsins. Er það vitnað til frétta sjónvarpsstöðvarinnar SVT: Västnytt.

Þar kemur fram að svo virðist sem Christen Ager Hanssen hafi notað fjármuni úr sjóðum félagsins til að greiða Pálma út úr félaginu en hlutabréfin lentu hjá Christen Ager Hanssen sjálfum. Í kjölfar kaupanna tók hin norski fjárfestir yfir alla stjórn á félaginu.

Viðskiptin tengjast einnig breska kaupsýslumanninum John Robert Porter sem kom inn í eigendahópinn í september. Svo virðist sem Fly Me hafi keypt bréf í félagi Porters, River don Ltd., án þess að greiðslan þar fyrir hafi lent hjá honum. Félagið greiddi peningana inn á reikning í vörslu lögfræðinga  Christen Ager Hanssen og af þeim voru 20 milljónir sænskra króna notaðar til að greiða Talden Holding SA, eiganarhaldsfélagi Pálma, fyrir bréf hans í félaginu. Pálmi staðfestir við Västnytt að greiðslan hafi borist til Talden Holding í gegnum Kaupting Bank í Luxenburg en segist ekkert vita um hvaðan þeir komu að öðru leyti.