Finnskur doktorsnemi við Princeton háskóla í Bandaríkjunum notar gögn úr íslenska tölvuleiknum EVE Online til að rannsaka hvernig fólk notar tryggingar. Í leiknum geta spilarar tryggt geimskipin sem þeir fljúga á og ef það er sprengt upp í orrustu fá þeir trygginguna greidda út.

Rætt er við Juha Tolvanen í umfjöllun Financial Times um tengsl tölvuleikja og fræðasamfélagsins og er EVE Online, sem framleiddur er af CCP, umsvifamikill í umfjölluninni.

Tolvanen segir að rannsókn hans snúi að þeim spilurum sem ekki kaupa tryggingar og hvað komi fyrir þá. Slíkar upplýsingar liggja almennt ekki fyrir um þá sem ekki kaupa bifreiðatryggingar, en hann segir að upplýsingar úr EVE geti gefið vísbendingar um það hversu hættulegir þeir eru sem ekki kaupa tryggingar. Vili Lehdonvirta frá London School of Economics segir að margt sé líkt með því að kaupa geimskipstryggingu í tölvuleik og bifreiðatryggingu í raunheimum. Grunnkenningin sé sú sama.

Annar fræðimaður, Edward Castranova, prófessor í samskiptatækni við Indiana háskóla, segir: „Þótt fólk sé að þykjasst vera álfar eða orkar í tölvuleik þýðir það ekki að það taki ekki rökréttar hagfræðilegar ákvarðanir.“