Það vakti töluverða athygli fyrr í mánuðinum þegar Lloyd Blankfein forstjóri Goldman Sachs hóf að nota Twitter síðu sína til þess að tjá sig um málefni sem hafa verið efst á baugi í umræðunni. Í sínu fyrsta tísti gagnrýndi hann ákvörðun Donald Trump Bandaríkjaforseta um að draga landið út úr Parísarsamkomulaginu. Hann hefur auk þess gagnrýnt stöðu á innviðauppbyggingu í Bandaríkjunum og hrósað Jeff Immelt fyrrverandi forstjóra General Electric fyrir starf sitt hjá fyrirtækinu.

Í viðtali við CNBC í gær sagði hann að ástæðan fyrir Twitter færslum sínum væri tvíþætt: „Annars vegar tjái ég mig um hluti sem eru innan verkahrings og sérþekkingar bankans. Hins vegar tjái ég mig um hluti sem hafa mikil áhrif getu fólksins okkar til að geta verið það sjálft og sinnt starfi sínu sem sérfræðingar"

Hann sagði jafnframt að hann notaði ekki samfélagsmiðilin til að koma sínum persónulegu skoðunum á framfæri heldur tístir hann sem forstjóri Goldman. Hann hefur áður notað fréttatilkynningar til þess að tjá sig meðal annars um málefni innflytjenda og hinsegin fólks en nú hyggst hann nota Twitter til að koma skoðunum sínum á framfæri.  Hann segir að eftir fjármálakrísuna árið 2008 hafi hann ákveðið að tjá sig meira á opinberum vettvangi þar sem honum fannst að almenningur misskyldi Goldman Sachs.