Þrátt fyrir að tæplega tveir mánuðir séu liðnir síðan bankahrunið dundi yfir hefur íslenskum fyrirtækjum gengið illa að ná upp eðlilegum bankaviðskiptum á milli landa. Enn eru verulega vandkvæði að taka á móti gjaldeyri og skila honum frá sér. Mörg íslensk fyrirtæki gripu til þess ráðs að nota dótturfélög í Færeyjum eða stofna bankareikninga þar og náðu þannig að halda samskiptum við erlenda viðskiptavini.

Einn þeirra sem notuðust við dótturfélag í Færeyjum segir að þeir hafi strax brugðið á það ráð að nota reikninga þar til að eiga samskipti við erlenda viðskiptavini. ,,Við eigum félag í Færeyjum og ákváðum því að nota þá leið. Það var ekki eins og við værum að velja eitthvert land heldur var þetta heppilegasta staðan. Við létum erlenda viðskiptavini leggja inn á reikninga þar til að hafa aðgengi að gjaldeyri sem við gátum notað til að halda þessu gangandi. Annars hefðum við lent í hrikalegum vandræðum og lentum reyndar í vandræðum eins og flest íslensk fyrirtæki,” sagði þessi fyrirtækjastjórnandi.

Hann benti á að rétt eins og öll önnur íslensk fyrirtæki þá voru þeir með beiðnir inn í Landsbankanum sem voru í biðröð og nutu ekki forgangs. Á tímabili hafi stefnt í alvarlegt ástand. Með því að fara færeysku leiðina hefðu þeir haft aðgengi að fjármunum sínum og það hefði gengið hnökralaust.

Enn er gríðarlegur skortur á gjaldeyri og erfitt að verða sér út um hann og fyrirtæki eru því að lenda í miklum vandræðum. Sumir viðskiptavinir sýna þessu skilning á meðan aðrir trúa ekki því sem gengur á. Því er langt í frá að þetta sé hnökralaust og stjórnvöld vilja vera láta. Því halda þeir sem notað hafa Færeyjaleiðina henni opinni áfram.