Heimsóknum á vef íslensku flugleitarvélarinnar Dohop.com fjölgaði um 27% á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við sama tímabil í fyrra. Þá hafa tekjur Dohop á fyrstu sex mánuðum ársins aukist um 123% miðað við sama tímabil í fyrra. Aukning á heimsóknum kemur að mestu leyti til vegna aukinna vinsælda vefsins meðal breskra og bandaríska ferðalanga að því er fram kemur í tilkynningu. Heimsóknir á vefinn frá þessum löndum er nú fleiri en frá Íslandi í fyrsta skipti í sögu fyrirtækisins.

Dohop hefur mætt þessari aukningu með fjölgun söluaðila og býður nú fleiri kosti til verðsamanburðar en áður, en auk flugleitar býður Dohop nú einnig upp á hótel- og bílaleit. Það hefur gefist vel því tekjur Dohop á fyrstu sex mánuðum ársins jukust heldur meira en gestafjöldinn eða um 123% sé borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2009. Hótelleit Dohop ber saman verð frá 22 ólíkum söluaðilum og finnur þannig lægsta verðið meðal þeirra sem getur sparað ferðalöngum tugi þúsunda.

Bílaleitin finnur bílaleigubíla hjá um 500 söluaðilum á 22.000 stöðum víða um heim og birtir frábær verð, sérstaklega í Bandaríkjunum og Evrópu.

Fyrir nokkru hóf Dohop átak í fjölgun samstarfsaðila með því að bjóða vefsíðum sérútgáfu af leitarvélinni og kost á því að hagnast á notkun hennar. Þetta hefur leitt til þess að leitarvél Dohop er nú í notkun á um 400 vefsíðum um allan heim, meðal annars á vefnum visiteurope.com.

Íslenskum vefsíðum stendur þessi þjónusta einnig til boða og geta báðir aðilar hagnast á þessu samstarfi segir í tilkynningu.