Alþýðufjarskiptasambandið, International Telecommunication Union (ITU), telur að notendur internetsins verði orðnir fleiri en tveir milljarðar í lok ársins.

Á síðustu fimm árum hefur fjöldi notenda tvöfaldast. Áætlað er að íbúafjöldi heimsins sé um 6,9 milljarðar manna og því verður tæplega þriðjungur manna nettengdur í lok árs.

Nýir notendur á þessu ári verða alls 226 milljónir manna ef spár ganga eftir og þar af 162 milljónir íbúa þróunarlanda. Í lok árs verða um 21% íbúa þróunarlanda nettengdir en um 71% íbúa iðnríkja.

ITU segir mikilvægt að þróunarlönd komi sér upp hröðum nettengingum. Það hafi jákvæð áhrif á hagvöxt landanna.