Í skýrslum sem verkfræðistofan EFLA hefur unnið fyrir Isavia um nothæfistíma og nothæfisstuðul Reykjavíkurflugvallar kemur fram að nothæfisstuðull fyrir Reykjavíkurflugvöll er metinn 97% án norðaustur-suðvesturflugbrautar. Viðmiðun Alþjóða flugmálastofnunarinnar ICAO á nothæfisstuðli er 95%. Nothæfistími Reykjavíkurflugvallar fyrir áætlunar- og sjúkraflug er 98,05-98,18% án sömu brautar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia.

Skýrslurnar eru unnar í kjölfar athugasemdar Samgöngustofu við drög að áhættumati Isavia sem unnið var í kjölfar  óska innanríkisráðherra um að Isavia hæfi undirbúning að lokun flugbrautarinnar. Isavia brást við ósk Samgöngustofu um frekari gögn og leitaði til verkfræðistofunnar EFLU sem óháðs aðila til að vinna þessar tvær skýrslur.

Greiningar sem EFLA byggir skýrslur sínar á sýna hærri gildi en fyrri skýrslur um sama efni. Meginástæða þessa er að skýrslur EFLU byggja á nákvæmari gögnum og mælingum eins og fram kemur hér að ofan. Skoðaðar voru allar lendingar Fokker 50 og Beechcraft King Air 200 á Reykjavíkurflugvelli á tveggja og hálfs árs tímabili frá 1. mars 2012 til 1. september 2014. Lendingar Fokker 50 voru samtals 11.538 en af þeim voru 70 á flugbraut 06/24 eða 0,61%. Lendingar Beechcraft King Air 200 voru samtals 1.659 en af þeim voru 23 á braut 06/24 eða 1,39%.