Velta á hlutabréfamarkaði hefur dregist saman frá byrjun árs 2013, þrátt fyrir hagvöxt og jákvæðar efnahagshorfur. Langt er í að markaðurinn verði samanburðarhæfur við markaði á hinum Norðurlöndunum.

Hrefna Ösp Sigfinnsdóttir, framkvæmdastjóri markaða hjá Landsbankanum, telur að skynsamlegt væri að beita skattalegum úrræðum til að auka þátttöku almennings á hlutabréfamarkaði. „Ég held einnig að í þeirri uppbyggingu sem á sér stað núna, þurfi að hvetja til kaupa á hlutafé með því að veita skattaafslátt. Við þekkjum hvað slíkur hvati getur gert, við þurfum að hvetja einstaklinga til sparnaðar og þá með beinum hætti. Þetta er góð leið til þess að mínu mati,“ segir hún.

Hrefna segir það skipta talsverðu að almenningur taki þátt á markaðnum. „Því fleiri sem fjárfesta því meiri dýpt og skoðanaskipti eru á markaði. Það er einnig mikilvægt að almenningur byggi upp langtímasparnað og hluti af þeim sparnaði ætti að vera í hlutabréfum og hlutabréfasjóðum. Það kallar líka á mikinn aga í rekstri fyrirtækja að vera í eigu almennings og ég tel það eftirsóknarvert,“ segir Hrefna. Aðkoma almennings að félögum í kauphöll hafi fyrst og fremst verið til að kaupa í útboðum og selja strax. „Það hefur sést á fækkun hluthafa í skráðum félögum. Margir fjárfestar geyma sparnaðinn sinn enn í innlánum og hafa ekki treyst sér inn á verðbréfamarkaðinn,“ segir Hrefna Ösp.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .