Orkusetur iðnaðarráðuneytisins og Vistvæn Orka ehf hafa verið í samstarfi um prófanir á ljósdíóðulömpum sem þróaðir eru á Íslandi.

Fyrstu niðurstöður prófana liggja nú fyrir og gefa væntingar um að draga megi stórlega úr raforkunotkun og þar með rekstrarkostnaði garðyrkjubænda.

Þetta kemur fram á vef Orkustofnunar

Fram kemur að niðurstöður tilraunaræktunar á papriku og rósum undir LED raflýsingu í tilraunagróðurhúsi LBHÍ að Reykjum benda til þess að hægt sé að ná fram verulegum raforkusparnaði í blóma- og matjurtarækt, án þess að það komi niður á gæðum eða uppskerumagni. Raforkusparnaður reynist vera um og yfir 50% í paprikurækt og um 50% í rósarækt.

„Þessar fyrstu niðurstöður benda því til að þessi nýja tækni geti mögulega helmingað raforkukostnað garðyrkjubænda,“ segir á vef Orkustofnunar.

„Hugsanlega er því hægt að spara 30 GWh í garðyrkju á Íslandi án þess að draga úr framleiðslunni. Raforkuna sem hægt væri að spara mætti nýta til að knýja um 20 þúsund rafbíla svo dæmi sé tekið.“

Sjá nánar á vef Orkustofnunar