Nótt Thorberg hefur verið ráðin markaðsstjóri Marel á Íslandi og hefur þegar hafið störf. Um nýtt starf er að ræða hjá Marel.

Verkefni hennar lúta að ímynd og markaðsstarfi félagsins á Íslandi. Nótt mun starfa með framkvæmdastjórn og sölu- og þjónustuskrifstofu Marel á Íslandi við samhæfingu markaðsaðgerða á landsvísu. Auk þess mun hún starfa að markaðsmálum þeirra fjögurra vörusetra félagsins sem staðsett eru hérlendis. Um er að ræða nýtt starf sem heyrir undir framkvæmdastjóra Markaðsmála Marel.

Fram kemur í tilkynningu frá Marel að Nótt starfaði áður hjá Samskipum frá ársbyrjun 2004. Hún stýrði þar um nokkurra ára skeið söludeild innanlandssviðs áður en hún gekk til liðs við fjármálasvið félagsins. Síðustu árin fékkst hún við fjölbreytt verkefni innan Samskipa sem fulltrúi framkvæmdastjórnar og forstöðumaður hagdeildar.  Á árunum 1998-2004 starfaði Nótt innan ferðaiðnaðarins. Nótt er varamaður í stjórn Stjórnvísis og er auk þess í stjórn Nýsköpunarhópsins innan þess fagfélags.

Nótt er markaðsfræðingur og hefur lokið tveimur diplómum á vegum The Chartered Institute of Marketing (CIM). Árið 2009 úskrifaðist hún með láði frá University of Strathclyde í Skotlandi með MSc Marketing gráðu. Hún er auk þess myndlistarmenntuð og með leiðsögupróf.