*

miðvikudagur, 21. ágúst 2019
Fólk 22. janúar 2019 17:36

Nótt Thorberg ráðin til Icelandair

Framkvæmdastjóri Marel á Íslandi tekur við sem forstöðumaður hjá Icelandair eftir 6 ár hjá fyrirtækinu.

Ritstjórn
Nótt Thorberg hefur starfað hjá Marel síðan 2012 en færir sig nú til Icelandair.
Haraldur Guðjónsson

Nótt Thorberg hefur verið ráðin forstöðumaður viðskiptahollustu hjá Icelandair þar sem hún mun stýra rekstri og þróun vildar- og viðskiptavinakerfis félagsins með það að markmiði að efla upplifun og ánægju viðskiptavina.

Nótt hefur langa reynslu af stjórnun og rekstri úr íslensku atvinnulífi. Hún var framkvæmdastjóri Marel á Íslandi á árunum 2016 til 2018 þar sem hún leiddi innlend verkefni í nánu samstarfi við iðnaði og alþjóðleg stoðsvið félagsins. 

Hún hóf störf hjá Marel árið 2012 og starfaði fyrstu árin sem markaðsstjóri Marel á Íslandi, auk þess sem hún vann að alþjóðlegum markaðsmálum. Áður starfaði Nótt hjá Samskipum, eða á árunum 2004 til 2012. 

Þar stýrði hún söludeild innanlandssviðs í nokkur ár og vann síðan að fjölbreyttum verkefnum innan fyrirtækisins sem fulltrúi framkvæmdastjórnar og forstöðumaður hagdeildar. Samhliða störfum sínum hefur Nótt setið í stjórn Stjórnvísis og Íslensku ánægjuvogarinnar, auk þess sem hún er á meðal stofnenda félagsins Konur í sjávarútvegi.

Nótt er með M.Sc. gráðu í markaðsmálum frá University of Strathclyde í Skotlandi og hefur lokið tveimur diplómagráðum frá Chartered Institute of Marketing. Hún er auk þess menntuð í myndlist og með leiðsögupróf. Sambýlismaður hennar er Sigurjón H. Ingólfsson og eiga þau tvö börn. 

Stikkorð: Marel Icelandair Samskip Nótt Thorberg