Víkurverki ehf. og framkvæmdastjóra félagsins var með dómi Héraðsdóms Reykjaness í liðinni viku gert að greiða Skandinavíuarmi Sony/ATV 800 þúsund krónur óskipt í skaðabætur vegna notkunar á laginu Ain’t No Mountain High Enough, með Marvin Gaye og Tammi Terrell, í óleyfi í auglýsingu.

Krafa Sony hljóðaði upp á 50 þúsund evrur, tæplega 7,5 milljónir króna á gengi dagsins, en á fyrri stigum hafði Víkurverki verið boðið að ljúka málinu með greiðslu á 8 þúsund evrum.

Í niðurstöðu dómsins segir að Sony sé hvorki höfundur né erfingi höfundarréttarins og að auglýsingin hefði aðeins verið birt í sjónvarpi og útvarpi um skamman tíma. Þá var ekki séð að brotið hefði verið gróflega gegn sæmdarrétti eða að Sony hefði orðið fyrir ófjárhagslegu tjóni. Kröfu um miskabætur var því hafnað. Kröfu um að framkvæmdastjórinn yrði dæmdur til refsingar var vísað frá dómi þar sem hún hafði ekki verið lögð fram innan lögmælts frests