Á árunum 2011 til 2013 notuðu Kínverjar meira af sementi en Bandaríkjamenn notuðu alla tuttugustu öldina. Bill Gates, stofnandi Microsoft, bendir á þessa staðreynd í grein á vefsíðu sinni . Gríðarleg uppbygging hefur verið í Kína undanfarin ár og undirstrikar þessi staðreynd þá þróun.

Á árunum 1901 til 2000 notuðu Bandaríkjamenn 4,5 gígatonn af sementi, eða 4,5 milljarða tonna af efninu, sem er grundvallarhráefni í steinsteypu. Á þriggja ára tímabili, 2011 til 2013 notuðu Kínverjar 6,6 gígatonn af sementi.

Í greininni vísar Gates í bókina Making the Modern World eftir sagnfræðinginn Vaclav Smil, en sá síðarnefndi heldur því fram að steinsteypa sé mikilvægasta manngerða efnið í heiminum. Steinsteypa sé bókstaflega grunnurinn að þeirri miklu borgarvæðingu sem orðið hefur undanfarna áratugi og hafi leikið mikilvægan þátt í því að draga úr fátækt á síðustu 25 árum.

Árið 1950 var framleitt jafnmikið af stáli og sementi, en frá þeim tíma hefur stálframleiðsla áttfaldast, en sementframleiðsla 25-faldast. Hlekkjar Gates á þessa hreyfimynd af Sjanghæ í Kína, sem sýnir hina gríðarlegu breytingu sem orðið hefur í Kína frá árinu 1987.