*

laugardagur, 25. september 2021
Innlent 3. júlí 2016 16:05

Notum skyrgerla við framleiðsluna

Ari Edwald svarar gagnrýni Hálfdáns Óskarssonar framkvæmdastjóra mjólkurvinnslunnar Örnu í Bolungarvík.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Ari tekur fram að það sé ekki rétt hjá Hálfdáni Óskarssyni framkvæmdastjóra mjólkurvinnslunnar Örnu í Bolungarvík að Mjólkursamsalan noti ekki skyrgerla við framleiðslu á skyr.is eins og Hálfdán nefnir.

„Nú er ég ekki mjólkurfræðingur eins og hann og margir sem starfa fyrir okkur, en mér er sagt að menn nota gerilinn með því að setja hann í ákveðið umhverfi, það væri ekki hægt að nota hann alveg einan og sér, heldur sé notaður skyrgerill ásamt jógúrtgerli. En ég kann nú ekki að lýsa því tæknilega, svo vel sé, nema hvað að út frá þeim upplýsingum sem ég hef held ég geti fullyrt að við séum að nota skyrgeril sem er á ákveðnum stað í þessu gerlarófi,“ segir Ari.

Fékk ekki að taka yfir aflagða en fullbúna aðstöðu á Vestfjörðum

Spurður hvort hræðsla við að fá samkeppni hafi valdið því að Hálfdán gat ekki fengið að leigja þá fullbúnu aðstöðu sem var til staðar á Ísafirði þegar vinnsla þar var lögð niður svarar Ari Edwald:

„Þetta var löngu fyrir mína tíð en það hefur ekki að mínu viti ekki ráðið neinu í þessu sambandi. Við erum ennþá með starfsemi í þessu húsi, þó að vinnslu hafi verið hætt og það sem hafi verið nothæft þarna af búnaði hafi verið notað í öðrum vinnslustöðvum. Mjólkursöfnunin á Vestfjörðum er rekin úr þessari starfsstöð sem og vörudreifing, svo við höfum nýtt húsið í okkar starfsemi áfram þótt hún sé með breyttu sniði,“ segir Ari. „Menn hafa komið að máli við okkur út af alls kyns iðnaðarstarfsemi í húsið en við höfum ekki treyst okkur til að fá þarna inn í húsið með okkur aðra aðila sem eru ekki í mjólk.“

Að endingu segir Ari Edwald: „Ég ítreka það bara að ég er að gera aðspurður tæknilegar athugasemdir við nokkur atriði, en í heild er það bara mikið ánægjuefni að það sé gróska í mjólkurframleiðslunni sem starfsemi Örnu ber vott um.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð.

Stikkorð: Ari Edwald Skyr Mjólkursamsalan Vestfirðir Arna