„Nova fagnar því að rekstrarleyfi fyrir 4G netþjónustu sé handan við hornið. Við höfum verið með tilraunaleyfi fyrir slíka þjónustu frá haustinu 2011 og vinna hefst nú við að geta boðið þessa þjónustu,“ segir Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova. Póst- og fjarskiptastofnun tilkynnti í dag niðurstöðu uppboðs vegna 4G gagnaflutningstþjónustu og að Nova sé eitt þeirra fyrirtækja sem fái slíkt rekstrarleyfi.

Haft er eftir Liv í tilkynningu frá Nova í kjölfar uppboðsins að Nova hyggist byggja þjónustuna upp í áföngum á sama hátt og 3G-þjónustuna þar sem höfuðborgarsvæðið er fyrsta skrefið áður en fleirum verður bætt við.

Nova hefur haft 4G tilraunaleyfi frá því í október árið 2011. Í upphafi má búast við því að 4G þjónustan verði fyrst og fremst netþjónusta, þ.e. fyrir 4G-punga og 4G-box, en í framhaldinu munu 4G farsímar koma á markaðinn og þeir fara að verða æ algengari síðar á árinu.

Hvað er þetta 4G?

3G er blanda af tal- og netþjónustu en 4G er eingöngu háhraða netkerfi.  4G heitir í tækni- og staðlaheiminum LTE (Long Term Evolution) og þar sem það er hluti  af GSM fjölskyldunni þá vinna þessi kerfi öll saman.  Það virkar sem sagt þannig að ef notandi er á 4G/LTE þjónustusvæði þá getur tækið hans fært sig yfir á 3G kerfið og þaðan getur tækið líka fært sig yfir á GSM kerfið og í hvora áttina sem er.

Í tilkynningu Nova er bent á að gagnaflutningar í gegnum farsíma hafi aukist mjög mikið undanfarin ár. Hjá Nova hafi aukningin t.d. verið þreföld á síðustu tólf mánuðum og sambærileg þróun sjáist um allan heim. 4G/LTE þjónustan mun mæta þeirri miklu þörf sem spáð er að verði í gagnaflutningum yfir farsímakerfin.  Á sama tíma munu 3G dreifikerfin auk þess taka við mikilli aukningu en þau geta hins vegar ekki borið jafn mikið eða veitt jafnmikla þjónustu og 4G/LTE.  Til að mynda getur 4G/LTE þjónustan strax í upphafi stutt gagnahraða sem er yfir 100Mb/s og á næstu árum mun hraðinn aukast enn meira.  4G/LTE er þannig nokkurs konar ljóshraði í loftinu sem mun opna fyrir margvísleg ný tækifæri.