*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Innlent 30. desember 2015 12:25

Liv hlýtur viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins

Liv Bergþórsdóttir tók við viðskiptaverðlaununum úr hendi Bjarna Benediktssonar í dag.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Nova og Liv Bergþórsdóttir, forstjóri fyrirtækisins, hlutu í dag viðskiptaverðlaun Viðskiptablaðsins. Liv tók við verðlaununum úr hendi Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra á Hótel Sögu í dag.

Frá stofnun fyrirtækisins hefur Nova farið ótroðnar slóðir í fjarskiptageiranum, en fyrirtækið lagði frá upphafi aðaláherslu á gagnaflutninga í gegnum 3G og síðar 4G kerfin.

Á skömmum tíma hefur fyrirtækið náð því að standa nú hinum stóru símafyrirtækjunum jafnfætis hvað varðar markaðshlutdeild á farsímamarkaði og er útlit fyrir að Nova verði stærsta fjarskiptafyrirtækið á farsímamarkaði innan skamms tíma.

Áhersla á markaðsmál og þjónustu einkennir alla starfsemi Nova. Slagorðið Stærsti skemmtistaður í heimi er aðeins þekktasta birtingarmynd þessarar nálgunar, en stjórnendur fyrirtækisins leggja einnig mikla áherslu á að starfsmenn séu drifnir og hafi ákveðið sjálfstæði í störfum sínum.

Mikil áhersla er lögð á að viðhalda frumkvöðlaanda fyrirtækisins þrátt fyrir að það sé nú orðið átta ára gamalt. Þá er fyrirtækið búið að vera í fremstu röð fyrirtækja hvað varðar ánægju viðskiptavina. Í mörg ár hefur Nova verið efst íslenskra fyrirtækja í ánægjuvoginni og hefur árangur fyrirtækisins sýnt að fjárfesting í ánægju viðskiptavina er góð fjárfesting.