Tekjur fjarskiptafélagsins Nova jukust úr 10,3 milljörðum í 11,3 milljarða króna á milli áranna 2019 og 2020. Hagnaðurinn jókst úr 990 milljónum króna í 1.070 milljónir króna á milli ára.

Í ársreikningi félagsins segir að heimsfaraldurinn hafi bæði haft jákvæð og neikvæð áhrif á reksturinn en heilt yfir hafi afkoman verið í takt við væntingar stjórnenda félagsins í upphafi ársins. Fleiri viðskiptavinir hafi til að mynda verslað í vefverslun Nova á meðan takmarkanir voru á fjölda gesta í verslunum.

Stöðugildum hjá félaginu fækkaði úr 156 í 150 á milli ára en laun og launatengd gjöld hækkuðu þó úr 1,5 milljörðum króna í 1,57 milljarða króna. Kostnaðarverð seldra vara hækkaði einnig eða úr 5,5 milljörðum króna í 6,35 milljarða króna.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 2,77 milljörðum króna en var 2,68 milljarðar árið áður. Þá námu afskriftir 1,44 milljörðum árið 2020 en voru 1,29 milljarðar árið 2019. Rekstrarhagnaður nam því 1,33 milljörðum en var 1,38 milljarðar árið 2018.

Að ganga frá sölu innviða

Þá bókfærir félagið ríflega 56 milljónir króna í tekjur vegna væntinga um lækkun á kaupverði Símafélagsins sem Nova keypti árið 2017 en kaupverðið er tengt afkomu Nova.

Í ársreikningnum kemur einnig fram að samhliða á sölu á 51% hlut sínum í Aur til Kviku hafi öll lán Nova til Aur verði greidd upp. Bókfærður hagnaður af sölunni verði um 251 milljón króna á þessu ári en bókfært verð eignarhlutar Nova í Aur var neikvætt um 23 milljónir króna.

Þá hefur Nova skrifað undir samning um sölu á hluta af óvirkum fjarskiptainnviðum félagsins. Líkt og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hyggst bandaríska félagið Digital Colony kaupa fjarskiptainnviði hér á landi af bæði Nova og Sýn á annan tug milljarða króna. Bandaríska félagið mun leigja íslensku félögunum búnaðinn til baka. Í ársreikningi Nova segir að skilyrði viðskiptanna hafi ekki öll verið uppfyllt en gert sé ráð fyrir að það klárist á komandi mánuðum.

Eigið fé Nova nam 4,8 milljörðum króna í lok árs 2020, skuldir 3,4 milljörðum og eignir 8,2 milljörðum króna. Nova er í eigu Platínum Nova sem er til helminga í eigu Novator, fjárfestingafélags Björgólfs Thors Björgólfssonar og bandaríska fjárfestingafélagsins Pt. Capital.

Fréttin hefur verið uppfærð með upplýsingum um að kaupverðið á Símafélaginu sé tengt afkomu Nova.