Platínum Nova, móðurfélag samstæðu Nova, hagnaðist um tæplega 1,5 milljarða króna í fyrra miðað við tæplega 386 milljóna króna hagnað árið 2020. Þar af var bókfærður um 900 milljóna króna hagnaður af sölu svokallaðra óvirkra innviða til bandaríska fjárfestingafélagsins DigitalBridge sem leigðar verða aftur af félaginu.

Til stendur að skrá Nova á markað á fyrri helmingi ársins og verður þar með þriðja af stóru fjarskiptafyrirtækjunum til að vera skráð á markað ásamt Sýn, móðurfélagi Vodafone á Íslandi, og Símanum. Líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá var 36% hlutur í Nova seldur í apríl á um sjö milljarða króna í aðdraganda skráningarinnar.

Tekjur Nova námu um 12 milljörðum króna á síðasta ári, sem samsvarar um 7% tekjuvexti á milli ára, sem er um það bil helmingur tekna hinna fjarskiptafyrirtækjanna tveggja á markaði, Símans og Sýnar, sem bjóða þó einnig upp á annars konar þjónustu utan fjarskipta.

Nova hefur uppi áform um að vaxa frekar á næstu árum, en markaðshlutdeild þess hefur vaxið jafnt og þétt frá því að félagið var stofnað árið 2006 og er nú um þriðjungur af fjarskiptamarkaði og fimmtungur af ljósleiðaramarkaði. Nova horfir m.a. til virkra innviða og 5G-væðingar fjarskiptakerfisins sem tækifæri til áframhaldandi vaxtar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .