4G-gagnaflutningsþjónusta Nova fór í loftið í Skorradag og Grímsnesi í dag. Þetta eru fyrstu tveir staðirnir utan höfuðborgarsvæðisins þar sem Nova býður upp á þessa þjónustu. Fram kemur í tilkynningu að 
Nova hóf fyrst íslenskra símafyrirtækja að bjóða upp á 4G-þjónustu hér á landi. Fram til þessa hefur hún aðeins verið bundin við höfuðborgarsvæðið..
4G netþjónusta Nova styður 10 sinnum meiri hraða en hefðbundið 3G samband, þrefalt meiri hraða en ADSL og er sambærileg við ljósleiðara eða um 20 – 40Mb/s hraða til notenda.

Þá segir í tilkynningunni að Nova hefur uppfært stóran hluta 3G farsímakerfis fyrirtækisins í 3G+ eða alls um 190 senda, sem eykur hraða netumferðar um allt að 50%. 
Flest allir nýrri snjallsímar styðja 3G+ og ættu því margir viðskiptavinir Nova nú þegar að finna hraðamuninn þegar vafrað er um netið.

Fjölda nýrra senda hefur verið bætt við núverandi þjónustusvæði til að auka afköst og gæði kerfisins enn frekar, samhliða nýjum sendum á landsbyggðinni. Nýir sendar eru til dæmis Lyngbrekka, sem þjónar Mýrum og hluta Borgarfjarðar, Búðardalur, Hólmavík, Hvammstangi, Hnjúkar (aukning í drægni og afli sem þjónar Blönduósi, Blöndudal, þjóðvegi 1 og nærsveitum), Hrafnafell í Fljótsdalshéraði, Rauðuskriður í Fljótshlíð og Þórólfsfell sem meðal annars þjónar Þórsmörk, Flagbjarnarholt í Hrunamannahreppi sem þjónar efri hluta Landssveitar ásamt Árnesi. Næstu staðir sem verða 4G-væddir eru Vopnafjörður og Búrfell sem mun þjóna Þjórsárdal, Galtalæk og syðri hluta Sprengisandsleiðar.