Ekkert varð af fyrirhugaðri lækkun lúkningargjalda íslenskra farsímafyrirtækja í júlí, eins og til stóð. Póst- og fjarskiptastofnun (PFS) tilkynnti í nóvember síðastliðnum að þann 1. júlí 2013 skyldu lúkningargjöld lækka úr 4 krónum á hverja mínútu í 1,66 krónur. Símfyrirtækið Nova kærði ákvörðunina til úrskurðarnefndar fjarskipta- og póstmála sem felldi ákvörðun PFS úr gildi, daginn áður en hún átti að taka gildi.

„Niðurstaðan hefur fyrst og fremst í för með sér að það dregst í ótiltekinn tíma að unnt sé að lækka smásöluverð í farsímaþjónustu hér á landi,“ segir Björn Geirsson, forstöðumaður lögfræðideildar PFS. „Úrskurðurinn er bagalegur í því ljósi að það liggur viðamikið og tiltölulega flókið samráðsferli við innlenda hagsmunaaðila og eftirlitsstofnun EFTA að baki ákvörðuninni. Endurtaka þarf allt ferlið upp á nýtt, jafnvel þótt aðferðafræði kostnaðargreiningarinnar og efnisleg niðurstaða sé staðfest að öllu leyti af úrskurðarnefndinni,“ segir hann.

PFS er heimilt að áfrýja úrskurðum úrskurðarnefndar til héraðsdóms. Málskotsrétturinn er þó háður samþykki ráðherra. Björn segir að stofnunin muni fara vel yfir það hvort ákvörðunin fari fyrir héraðsdóm.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.