Nova og Símafélagið hafa náð samkomulagi um kaup Nova á öllu hlutafé Símafélagsins. Kaupverðið er sagt trúnaðarmál, en sameiningin er háð samþykki Samkeppniseftirlitsins.

Símafélagið hefur undanfarinn áratug sérhæft sig í alhliða fjarskiptaþjónustu fyrir fyrirtæki og byggt upp eigið fjarskiptanet á landsvísu. Velta Símafélagsins nam 706,7 milljónum króna á síðasta ári. Eignir fyrirtækisins námu 295,8 milljónum í lok síðasta árs. Eigið fé nam 76,1 milljón og var bókfært virði hlutafjár 31,5 milljónir. Nova velti 8,5 milljörðum króna á síðasta ári, en áætlað er að veltuaukning Nova vegna kaupanna á Símafélaginu verði í kringum 2 milljarðar.

„Með kaupunum á Símafélaginu er stefnt að því að sameina starfsemi Símafélagsins og fyrirtækjaþjónustu Nova í eitt fyrirtækjasvið,“ segir Liv Bergþórsdóttir, forstjóri Nova.

„Þetta er fyrst og fremst hugsað til að styrkja fyrirtækjasviðið okkar, en hingað til höfum við ekki boðið nettengingar á fyrirtækjamarkaði, aðeins farsíma- og fastlínuþjónustu. Sameiginleg velta fyrirtækjanna verður um og yfir 10 milljarðar króna. Ég á ekki von á öðru en að kaupin gangi í gegn, en endanleg sameining mun þá eiga sér stað snemma á næsta ári,“ segir Liv. Framkvæmdastjóri Símafélagsins mun leiða nýja fyrirtækjasviðið.

Hætta að rukka fyrir símtöl og SMS

Frá og með morgundeginum mun fjarskiptafyrirtækið Nova hætta alfarið að rukka fyrir símtöl og SMS á Íslandi og í Evrópu. Einungis verður í boði að kaupa gagnamagn, í pökkum eða fyrirframgreitt, og fylgja símtöl og skilaboð frítt með. Breytingin er gerð í tilefni af tíu ára afmæli Nova, en fyrirtækið opnaði dyr sínar þann 1. desember árið 2007. Fyrirtækið hefur vaxið þó nokkuð frá þeim tíma og er í dag stærsta farsímafyrirtæki landsins í fjölda viðskiptavina, með lang mestu markaðshlutdeildina í netnotkun.

„Við fórum inn á fjarskiptamarkaðinn fyrir tíu árum síðan til að taka þátt í þeirri breytingu og snjallvæðingu sem fyrirséð var að yrði á farsímaþjónustu,“ segir Liv, en hún hefur stjórnað fyrirtækinu frá upphafi.

„Það höfðu ef til vill ekki margir trú á þessu markmiði okkar í byrjun. En það hefur verið í umræðunni í mörg ár í fjarskiptageiranum að í framtíðinni myndu símtöl og SMS ekki kosta neitt, heldur yrði borgað fyrir eitthvað annað. Núna ætlum við að stíga skrefið að fullu. Frá og með morgundeginum verða símtöl og SMS í frelsi hjá Nova ókeypis og munu ótakmörkuð símtöl og SMS fylgja netpökkum í áskrift. Þetta gildir á Íslandi og í Evrópu.“ Jafnframt mun Nova breyta netpökkum sínum og leggja áherslu á stærri pakka.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .