Miklar lækkanir voru í Kauphöllinni eftir viðskipti dagsins. Af 22 skráðum félögum voru 18 rauð eftir viðskipti dagsins. Úrvalsvísitalan lækkaði um 1,47% og heildarvelta á markaði nam 2,1 milljarði.

Gengi bréfa Origo fóru niður um 3,51% í 83 milljóna viðskiptum og lækkuðu þar með mest í dag. Þá lækkaði Nova um 2,32% og hafa bréf félagsins ekki verið lægri frá skráningu í síðustu viku. Gengið stendur nú í 4,42 krónum á hlut og er nú 13,5% undir 5,11 krónu útboðsgenginu í útboði félagsins í aðdraganda skráningarinnar.

Icelandair var eina félagið sem hækkaði í dag og hækkaði um 1,26% í 98 milljóna króna viðskiptum. Þá hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 8,8% á síðastliðnum mánuði.

Sjá einnig: Hlutabréf Alvotech lækkað um fjórðung

Á First North markaði lækkaði gengi Alvogen um 3,62% í 35 milljóna króna viðskiptum. Viðskipti með bréf félagsins hófust fyrir viku síðan og hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 6,16% síðan. Fyrirtækið er einnig skráð á bandaríska Nasdaq-markaðinn og hefur gengið fallið um 24,4% frá skráningu sem var fyrir tveimur vikum síðan.