Fyrsti dagur Nova í Kauphöllinni var í dag. Í lok dags stóð gengið í 4,63 en er það 9,36% lækkun frá úboðsgengi félagsins sem var 5,11 krónur á hlut. Heildarvelta með bréf félagsins nam 616 milljónum króna.

Tiltölulega grænt var í Kauphöllinni eftir viðskipti dagsins en Úrvalsvísitalan hækkaði um 0,95% í 4 milljarða króna viðskiptum. Af 22 félögum voru tólf græn en fimm voru rauð eftir viðskipti dagsins. Þá hækkuðu bréf Origo mest í dag eða um 2,8% í 25 milljóna króna viðskiptum. Gengið stendur nú í 55 krónum á hlut en það hefur lækkað um 13,39% á síðastliðnum mánuði. Bréf Ölgerðarinnar lækkuðu aftur á móti mest eða um 2,15%. Gengið stendur nú í 9,56 krónum á hlut, er það 7,4% yfir útboðsgengi A-tilboðsbókar og 7,1% undir útboðsgengi B-tilboðsbókar.

Bréf Marels hækkuðu um 1,93% í 1,5 milljarða króna viðskiptum en gengi félgsins hefur verið í stöðugri lækkun síðastliðin misseri. Gengið stendur nú í 580 krónum á hlut og hefur lækkað um 31,73% á 12 mánaða tímabili.

Þá lækkaði gengi Eimskips um 2,13% í 102 miljóna króna viðskiptum. Félagið tilkynnti í gærkvöldi að Hilmar Pétur Valgarðsson, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Eimskipi, hafi verið boðaður í skýrslutöku hjá héraðssaksóknara vegna rannsóknar embættisins á sölu skipanna Goðafoss og Laxfoss.