Nova er það fyrirtæki sem býður hraðasta farsímanetið á Íslandi samkvæmt Speedtest-hraðaprófi fyrirtækisins Ookla. Síminn varð efstur í mælingum fyrirtækisins á fyrri hluta ársins 2017 en nú hefur Nova tekið fram úr og mælist með hraðasta netið hér á landi. Nova mældist með hraðann 51.61 Mb/s á farsímaneti og 259.76 Mb/s hraða í heimatengingum og ljósleiðara hjá Ookla og hlýtur því viðurkenningu fyrirtækisins fyrir hraðasta netið á þriðja og fjórða ársfjórðungi ársins 2017.

Ookla er alþjóðlegt fyrirtæki sem sérhæfir sig í að mæla nethraða allra fjarskiptafyrirtækja á markaðnum og miðla þeim upplýsingum til neytenda. Fyrirtækið hefur framkvæmt yfir 10 milljónir mælinga í 55 löndum heims á síðustu þremur árum. Hægt er að skoða niðurstöðurnar fyrir Ísland og fleiri lönd á vef fyrirtækisins.

„Þessi niðurstaða hraðamælinga Speedtest frá Ookla er okkur mikið fagnaðarefni. Markmið Nova er að eiga ánægðustu viðskiptavinina og í því felst m.a. að bjóða upp á hraðasta farsímanetið. Við ætlum að halda áfram uppbyggingu farsímakerfis okkar á árinu 2018 til að mæta síaukinni netnotkun viðskiptavina okkar. Nova hóf í fyrra að bjóða ljósleiðaraþjónustu þar sem áhersla er lögð á hraða nettengingu inn á heimili, án þess að viðskiptavinir þurfi líka að greiða fyrir heimasíma og sjónvarpsþjónustu. Þannig höfum við aðgreint okkur frá öðrum á markaðnum. Við lítum svo á að öflug nettenging sé í raun það eina sem nútímaheimilið þurfi í dag til að njóta afþreyingar,“ er haft eftir Liv Bergþórsdóttur, forstjóra Nova í fréttatilkynningu.