Heildartekjur af fjarskiptastarfsemi hér á landi námu rúmum 52 milljörðum króna á síðasta ári og hafa þær aukist um fjögur prósent frá árinu áður. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Póst- og fjarskiptastofnunar um íslenska fjarskiptamarkaðinn. Stærstur hluti teknanna kemur frá farsímarekstri eða um 30% en þær drógust lítillega saman milli ára. Fjögur félög eru stærst á markaðnum á Íslandi, Síminn, Nova, 365 og Vodafone, en þegar litið er á heildarfjölda áskrifta í gegnum farsíma er stærsta félagið Síminn með 35,7% markaðshlutdeild, þar á eftir Nova með 32,9% og Vodafone með 27,4%.

Áskrifendum Nova fjölgar um 8%

Athygli vekur að það fyrirtæki sem eykur mest við hlutdeild sína í áskriftum milli ára er Nova en áskrifendum fjölgaði um 8,38% milli ára samanborið við um 5% fjölgun áskrifenda hjá Vodafone og 2% hjá Símanum. Sé litið til markaðshlutdeildar fyrirtækjanna í föstum áskriftum trónir Síminn á toppnum með 44,8% hlutdeild en Nova er langstærst í fyrirframgreiddum símakortum með um 55,3% hlutdeild. Nova er jafnframt með um 67,4% af heildarfjölda SMS skilaboða og 53,1% MMS skilaboða auk þess sem það er með mestu markaðshlutdeild í áskriftum fyrir netið í farsímann eða 40,4%. Hlutdeild Nova hefur vaxið jafnt og þétt í netáskriftum í farsíma á síðustu þremur árum en hún hefur breyst lítið hjá Símanum og dregist saman hjá Vodafone. Töluverð aukning hefur verið á gagnamagni fyrir netið í farsímann hjá Nova en umferðin jókst um 190% milli ára hjá fyrirtækinu á meðan hún jókst um rétt rúm 100% hjá hinum stóru fyrirtækjunum og um 147% á öllum markaðnum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áaskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .