Gagnaflutningsmagn í farsímakerfi Nova fjórfaldaðist á fyrstu sex mánuðum ársins miðað við sama tíma í fyrra og er nú svo komið að fyrirtækið er með helminginn af markaðnum. Þetta kemur fram í tölfræðiúttekt Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) á íslenska fjarskiptamarkaðnum. Í úttektinni kemur m.a. fram að áskriftir í farsímakerfinu eru tæplega 406.000.

Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, segir í samtali við Fréttablaðið tölurnar sýna að Nova sé að festa sig í sessi sem annað stærsta farsímafyrirtæki landsins. Þær eigi sér líka einfaldar skýringar:

„Þetta sýnir einna helst hvað 4G-þjónustan hjá okkur hefur fengið góðar móttökur. Með slíkri þjónustu er hraðinn og upplifunin af netnotkun bara allt önnur.“ Þá hafi uppbygging þriðju kynslóðarinnar í gagnaflutningstækni sem hófst árið 2007 markað ákveðin tímamót.

„En nú er ný bylting að hefjast,“ segir hún og vísar í spá frá GSMA, alþjóðlegum hagsmunasamtökum farsímafyrirtækja, þar sem fram kemur að á næstu fimm árum muni gagnaumferð á alþjóðavísu sjöfaldast frá því sem nú er, ekki síst vegna þeirra möguleika sem 4G gefur til þess að njóta margmiðlunarefnis á farnetum.