Símafyrirtækið Nova sendi Póst- og fjarskiptastofnun formlega beiðni í dag um 4G tilraunaleyfi á Íslandi. Í tilkynningu segir að Nova óski eftir heimild til prófana á 1800 MHz tíðnisviðinu. Nova hefur gert 4G samning við Huawei Technologies sem gerir fyrirtækinu kleift að hefja undirbúning að 4G farsíma- og netþjónustu á Íslandi.

Úr tilkynningu:

„Uppbygging Nova á 3G farsíma- og netþjónustu hófst á Íslandi árið 2006 þegar fyrirtækið fékk úthlutað 3G tilraunaleyfi og í framhaldi af því 3G rekstrarleyfi í mars 2007. Framfarir í þráðlausum netkerfum eru nú örar og víða um heim eru fyrirtæki að stíga sín fyrstu skref í 4G þjónustu. Með 4G eykst gagnahraði verulega (yfir 80-100 Mb/s), auk þess sem tæknin opnar dyr að margvíslegum nýjum þjónustumöguleikum fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Mao Hauhui, yfirmaður Huawei á Norðurlöndunum, segir það ánægjulegt að Nova skuli taka stefnuna á 4G og Ísland bætast þar með í hóp þeirra landa sem hvað fyrst hefja innleiðingu 4G. Noregur og Svíþjóð voru fyrstu löndin í heiminum til að bjóða 4G þjónustu, í lok árs 2009, og stöðugt fjölgar þeim fjarskiptafyrirtækjum sem eru að hefja 4G uppbyggingu.

3G farsímakerfi Nova nær nú til yfir 90% landsmanna og allra bæjarfélaga með 500 eða fleiri íbúa. Nýlega var enn einum 3G uppbyggingaráfanga Nova náð þegar Seyðisfjörður, Neskaupstaður, Eskifjörður, Reyðarfjörður og Fáskrúðsfjörður voru tengdir 3G þjónustu Nova. Fyrr í vor bættust einnig Ísafjörður, Bolungarvík og fleiri staðir við 3G þjónustusvæði Nova.

Tómas Ottó Hansson, stjórnarformaður Nova, segir að fyrirtækið hafi verið leiðandi í 3G þjónustu hér á landi með áherslu sinni á netið í farsímann og punginn í fartölvuna. „4G samningurinn við Huawei undirstrikar að Nova ætlar sér að halda þessu leiðandi hlutverki í þráðlausum samskiptum hér á landi - við trúum á þráðlausa framtíð," segir Tómas.“