Eins og Viðskiptablaðið greindi frá , þá var söluverð á hluta Novator í Nova yfir 15 milljarðar íslenskra króna. Félagið á 94% í félaginu en stjórnendur áttu restina, þar á meðal Liv Bergþórsdóttir forstjóri.

Björgólfur Thor Björgólfsson eigandi Novator er aftur kominn í hóp ríkustu manna heims, en auðæfi hans eru metin á 1,54 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur 177 milljörðum íslenskra króna. Situr hann í sæti 1.121 á lista Forbes yfir ríkustu menn heims.

Nova er með mestu markaðshlutdeild á farsímamarkaði á Íslandi, en alls eru 34% allra áskrifta á farsímaneti hjá Nova, en 33,8% hjá Símanum.

Vodafone er með þriðju stærstu hlutdeildina eða 28,1% og 365 er með 3,4%. Þetta kemur fram í tölfræðiskýrslu Pósts- og fjarskiptastofnunar .

Jafnframt er Nova með langstærstu stöðuna þegar kemur að notkun gagnamagns á farsímaneti eða 64,6% meðan Síminn er með 18,3% og Vodafone með 12,8%. 365 er með 4,1% af gagnamagnsnotkuninni.