Nova hefur tekið í notkun fyrsta 5G sendinn á Íslandi og hefur hafið prófanir á 5G farsíma- og netþjónustu til viðskiptavina sinna. Fyrirtækið var einnig fyrst til að taka upp bæði 3G og 4G tæknina hér á landi og forstjóri fyrirtækisins segir það hafa skapað væntingar hjá viðskiptavinum fyrirtækisins.

Þeir ætlist til að helstu tækniframfarir skili sér fljótt til landsins og vilji upplifa sama hraða og neytendur njóta í stórborgum út í heimi. Þegar uppfærslu fjarskiptakerfis Nova í 5G verður lokið munu notendur njóta að meðaltali tífalt meiri nethraða miðað við 4G. Búast má við að kerfið verði komið í almenna útbreiðslu hér á landi á næsta ári, árið 2020.

Tilraunir munu taka nokkra mánuði

Nova sótti um 5G tilraunarleyfið til Póst og fjarskiptastofnunar fyrr í þessum mánuði og hefur fyrsti sendirinn nú verið settur upp á þaki Nova við Lágmúla og í versluninni á fyrstu hæð er þráðlaus netbeinir sem getur móttekið 5G merki. Tilraunirnar munu taka nokkra mánuði en þróunin í búnaði fyrir þráðlaus fjarskipti hefur verið mjög hröð að undanförnu.

Fyrsti farsíminn sem styður 5G, Samsung S10, var kynntur á stærstu árlegu farsímasýningunni í Barcelona í gær og er búist við að aðrir farsímaframleiðendur muni á næstunni kynna síma sem styðji við tæknina.

Mikil fjárfesting í hraða og afkastagetu á síðustu árum

Netnotkun viðskiptavina Nova í farsímum hefur stóraukist milli ára og áætlað er að aukningin vaxi áfram um tugi prósenta á ári. Það er fyrst og fremst streymi afþreyingar og samskipta í háum gæðum sem kallar á aukna afkastagetu fjarskiptakerfa.

Hver ný kynslóð þessara kerfa hefur haft í för með sér margföldun á hraða og þar með á notkunarmöguleikum farsíma, úrvali smáforrita og annarra samskipta. Stór stökk í nethraða hafa yfirleitt leitt af sér stofnun fjölda nýrra fyrirtækja og jafnvel beinar samfélagsbreytingar. Því er uppbygging fjarskiptakerfa í flokki afar mikilvægra innviðafjárfestinga.

Sífellt fleiri tæki sem tengd eru við netið

Notendur gera sífellt meiri kröfur og nú þegar bílar, armbandsúr og nýjustu heimilistækin eru öll tengd við netið þá þurfa fjarskiptakerfin að vera undirbúin og Nova hefur lagt út í umtalsverða fjárfestingu til að vera á undan þörfinni fyrir aukna flutningsþörf.

Til merkis um þetta þá fékk fyrirtækið í dag viðurkenningu fyrir að vera með hraðasta netið á Íslandi sem veitt er af óháða vottunaraðilanum Ookla Speedtest. Þetta er í þriðja skiptið í röð sem Nova er mælt með hraðasta netið hér á landi að því er fyrirtækið segir frá í fréttatilkynningu.

Meira en helmingur notkunar hjá Nova

„Stóraukin netnotkun fólks í farsímum snertir Nova sérstaklega, sem stærsta veitanda farsímaþjónustu á Íslandi, en viðskiptavinir fyrirtækisins nota netið mun meira en viðskiptavinir annarra fjarskiptafyrirtækja. Til marks um það þá fór 54% af allri netumferð í farsímum hér á landi í fyrra, um farsímakerfi Nova,“ segir Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova.

„Markmið okkar er að eiga ánægðustu viðskiptavinina og í því felst m.a. að bjóða ávallt upp á hraðasta farsímanetið. Það er fagnaðarefni að það hafi verið staðfest í hraðamælingum Speedtest frá Ookla. Ákvörðunin um að fara í 5G er stórt skref í uppbyggingu farsímakerfis Nova og gerir fyrirtækinu kleift að mæta síaukinni netnotkun viðskiptavina okkar. Við finnum að þeir hafa miklar væntingar til þess að við bjóðum upp á 5G hraða á sama tíma og fólk fær hann í öðrum löndum.“

Um fjarskiptakerfi Nova

Nova hefur verið leiðandi í innleiðingu nýrra kynslóða fjarskiptatækni að því er segir í fréttatilkynningunni. Fyrirtækið setti upp fyrsta 3G farsímakerfið hér á landi árið 2006, hóf 4G þjónustu árið 2013 fyrst fyrirtækja og 4,5G þjónustu árið 2017.

Samstarfsaðili Nova í uppbyggingu 5G fjarskiptakerfisins er alþjóðlega fyrirtækið Huawei Technologies en Huawei er leiðandi í þróun háhraðafarsímatækni. Huawei hefur í dag gert samning við yfir 30 fjarskiptafyrirtæki í Evrópu um uppbyggingu á 5G. Í dag hafa yfir 70 lönd hafið prófanir á 5G.

Á síðasta ári fjárfesti Nova um 1 milljarði króna til uppbyggingar á fjarskiptakerfum sínum og áætlar félagið að fjárfestingin verði rúmlega 1 milljarður á árinu 2019. Búast má við að 5G tæknin verði komin í almenna útbreiðslu árið 2020 þegar fjöldi 5G farsíma og annarra tækja, sem styðja þennan aukna hraða, verður kominn á markaðinn.

Nova starfsfólkið
Nova starfsfólkið
© Aðsend mynd (AÐSEND)