*

laugardagur, 27. nóvember 2021
Innlent 15. desember 2020 17:50

Nova valið markaðsfyrirtæki ársins

Fjarskiptafyrirtækið Nova er fyrst til að hljóta Íslensku markaðsverðlaunin í þrígang, þegar verðlaunin voru afhent í 29. sinn.

Ritstjórn
Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands afhenti forsvarsmönnum Nova Íslensku markaðsverðlaunin.
Aðsend mynd

Íslensku markaðsverðlaunin voru afhent í 29. skiptið í gær við hátíðlega athöfn í Hörpu.  Nova er fyrst fyrirtækja til að hljóta titilinn í þrígang. Aldrei hafa borist fleiri tilnefningar en ár.

Nova var valið markaðsfyrirtæki ársins við hátíðlega athöfn í Hörpu í gær og var það forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands sem afhenti verðlaunin. Þau Margrét Tryggvadóttir, forstjóri Nova og Magnús Árnason, framkvæmdastjóri stafrænnar þróunar hjá Nova tóku við viðurkenningunni fyrir hönd fyrirtækisins, að viðstöddum fámennum hópi í ljósi heimsfaraldurs.  

Alls voru fimm fyrirtæki tilnefnd af dómnefnd, Arion banki, Krónan, Síminn, 66°Norður og Nova, en aldrei hafa borist fleiri tilnefningar en í ár og samkeppnin því óvenju mikil í ár. Markaðsverðlaun ÍMARK hafa verið veitt frá árinu 1991 og eru veitt þeim fyrirtækjum sem hafa verið áberandi í markaðsmálum á síðastliðnum tveimur starfsárum og þykir hafa sannað að sýnilegur árangur hafi náðst.

„Við erum einstaklega þakklát fyrir að fá að taka við þessari viðurkenningu. Við höfum vaxið og dafnað sem einstaklingar og sem fyrirtæki erum við  komin á unglingsaldurinn. Oft erum við óþekki unglingurinn, eins og sést vel á nýjustu herferðinni okkar, sem sýnir að við erum sífellt að þróast og það er ekki leiðinlegt. Við tökum við viðurkenningunni fyrir hönd allra þeirra 160 liðsmanna Nova, sem með kraftinum, metnaðinum, viljanum og gleðinni, hafa náð þessum árangri,” sagði Margrét Tryggvadóttir við móttöku viðurkenningarinnar.

„Það er einstakt að fá að tilheyra hópi sem er tilbúinn til að vaða eld og brennistein til að verja vörumerkið og hvar við stöndum. Það er mjög auðvelt að setja ekki upp skautavell í miðjum heimsfaraldri, draga aðeins úr markaðsstarfi þegar hinir eru að gera það og það er líka rosalega auðvelt að hafa fólk í fötum í auglýsingum. En það þarf kjark til að fara áfram og ef sérstaðan á að vera tónn fyrirtækisins, þá þarf að þora að fara út fyrir samkeppnina og það helsta sem er á markaðnum. Þetta er auðvelt hjá fyrirtæki þar sem gleði er stór hluti af því sem við gerum á hverjum einasta degi,” bætti Magnús við.

Sem fyrr segir er Nova fyrst fyrirtækja til að hljóta verðlaunin í þrígang og segir Þóra Hrund Guðbrandsdóttir, framkvæmdastjóri ÍMARK það eitt og sér heilmikinn vitnisburð.

„Nova hefur sett sér skýr markmið frá upphafi og hefur þeim tekist gríðarlega vel að láta þessi markmið endurspeglast í öllum þeirra ákvörðunum og aðgerðum,“ segir Þóra Hrund.

„Þau sanna það að markaðsmál eiga heima í framkvæmdastjórn fyrirtækja og þegar markaðsdrifin hugsun er í hávegum höfð þá skilar það langvarandi árangri fyrirtækja  og vörumerkja. Það krefst mikils úthalds að halda svo sterkri stöðu til langs tíma og er NOVA fyrsta fyrirtækið til að verða markaðsfyrirtæki ársins í þrígang sem er gríðarlegt afrek útaf fyrir sig.“

Í rökstuddum úrskurði dómnefndar segir m.a.:

„Fyrirtækið hefur verið áberandi undanfarin ár og náð góðum árangri á þeim markaði sem það starfar á. Athyglisvert er hve stjórnendur hafa verið staðfastir í þeirri trú að markaðsáhersla sé rétta leiðin til að ná árangri og markaðsleg gildi endurspeglast í allri starfsemi fyrirtækisins. Viðskiptavinurinn er ætíð í forgrunni og til staðar er góður skilningur á því að þarfir og lausnir munu breytast þegar til framtíðar er litið. Stjórnendahópurinn er samhentur og samstíga, þess gætt að unnið sé þvert á deildir, og tryggt að allir gangi í takt í átt að sömu markmiðum. Markaðsstarfið er faglegt, stundum ögrandi, en einkennist fyrst og fremst af glaðværum metnaði.”

Dómnefndina í ár skipuðu þau:

Andrés Jónsson - Góð samskipti, Dr. Edda Blumenstein - BeOmni, Guðmundur Arnar Guðmundsson - Akademias, Jón Þorgeir Kristjánsson - Þjóðleikhúsið, Katrín M. Guðjónsdóttir - Men&Mice, María Hrund Marínósdóttir - Móðurskipið, Sunneva Sverrisdóttir - CO/PLUS, Dr. Svala Guðmundsdóttir - Háskóli Íslands og Dr. Þórhallur Örn Guðlaugsson - Háskóli Íslands.