Fjarskiptafyrirtækið Nova er á leið á markað á fyrri hluta þessar árs. Í aðdraganda útboðsins var 36% hlutur í félaginu seldur á um sjö milljarða króna til verðbréfafyrirtækjanna Stefnis, Landsbréfa og Íslandssjóða auk hóps einkafjárfesta líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í siðustu viku. Nýu hluthafarnir greiddi fyrir um helming hlutabréfanna með því að kaupa hluti eldri hluthafa en hinn helmingurinn var í formi nýs hlutafjár í Nova.

Í verðmati sem unnin hafa verið í tengslum við útboðið í aðdraganda skráningarinnar var Nova, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, metið á um 17 til 21 milljarð króna. Það verðmat var þó fyrir um 3,5 milljarða hlutafjáraukningu í Nova með innkomu nýju hluthafanna fyrir skemmstu. Verðmatið samsvarar 7-8 földum áætluðum rekstrarhagnaði Nova fyrir afskriftir (EBITDA) á yfirstandandi rekstrarári.

Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var seldur stærri hlutur en upphaflega stóð til vegna mikils áhuga á fjárfestingu í félaginu. Fyrirtækjaráðgjöf Arion banka var ráðgjafi við söluna og hefur umsjón með skráningunni á markað.

Nokkrar breytingar hafa verið á hluthafahópi Nova undanfarin ár. Bandaríski framtakssjóðurinn Pt Capital eignaðist helmingshlut í félaginu árið 2017 og keypti síðan eftirstandandi helmingshlut Novator í ágúst á síðasta ári, og eignaðist þar með nærri allt hlutafé félagsins. Novator hafði fram að því verið aðaleigandi félagsins frá stofnun þess árið 2006.

Hugh Short, stjórnarformaður Nova og framkvæmdastjóri Pt Capital, sagði við Viðskiptablaðið í nóvember að félagið hefði til skoðunar að skrá félagið á markað og fá þannig innlenda hluthafa að borðinu. Þá greindi Viðskiptablaðið frá því í október að kínverskir fjárfestar væru meðal hluthafa í sjóði Pt Capital sem á Nova.

Eftir kaup Pt Capital var fjölgað úr þremur í fimm í stjórn Nova og stjórnin skipuð Hugh Short og tveimur bandarískum aðilum tengdum Pt Capital en það voru Kevin Michael Payne og Tina Pidgeon. Auk þess tóku Hrund Rudolfsdóttir, forstjóri Veritas, og Gísli Valur Guðjónsson, framkvæmdastjóri Ísafold Capital Partners sæti í stjórn félagsins.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .