Tekjur og hagnaður hins svissneska Novartis, sjötta stærsta lyfjafyrirtækis veraldar, fóru fram úr væntingum sérfræðinga á þriðja ársfjórðungi. Kostnaður reyndist minni en ætlað hafði verið og yfirtökur á fyrirtækjum juku tekjur samstæðunnar. Hagnaður jókst um 13% og nam 1,67 milljörðum dollara og sala jókst um 19%; nam 8,42 milljörðum dollara.

Hin aukna sala átti fyrst og fremst rætur að rekja til Sandoz samheitalyfjadeildar Novartis, þar sem tekjur tvöfölduðust í kjölfar sameiningar Hexal í Þýskalandi og Eon Labs í Bandaríkjunum, en síðarnefnda fyrirtækið keypti Novartis fyrr á þessu ári. Tekjur Sandoz námu 1,49 milljörðum dollara. Sala á neytendavöru jókst einnig, vegna kaupa á vörulínu frá keppinaut Novartis.

Í tilkynningu um árshlutauppgjörið sagði að lyfjasala Novartis myndi líklega hækka um nærri 10% á árinu og að hagnaður myndi verða meiri en nokkru sinni fyrr. "Þessar góðu tölur gera okkur þess fullviss að við náum markmiði okkar um að setja nýtt met í sölu og hagnaði á árinu," sagði Dr. Daniel Vasella, stjórnarformaður og forstjóri Novartis í tilkynningunni. Fjárfestar tóku tíðindunum vel og verð hlutabréfa í félaginu hækkaði um 2,6% í kjölfar þeirra.