Novator Telecom Poland, félag sem stjórnað er af Björgólfi Thor Björgólfssyni, hefur gert tilboð í 13% af heildarhlutafé pólska símafyrirtækisins Netia, segir í tilkynningu. Netia er skráð í kauphöllinni í Varsjá.

Þar segir að við lokun markaðar á föstudaginn hafði Novator Telecom Poland eignast yfir 10% hlut í Netia og bar því að tilkynna um virkan eignarhlut.

?Novator stefnir að því að eignast um 25% af hlutafé Netia. Markaðsvirði þess hlutar er nærri 150 milljónum evra eða um 12 milljarðar íslenskra króna," segir í tilkynningunni.

Tilboð Novators er 8% yfir verði hvers hlutar við lokun markaðar á föstudag eða 6,15 pólsk zloty. Hluthafar í Netia geta gengið að tilboði Novator frá 29. desember til 13 janúar 2006.

Netia á um 30% í Netia Mobile þar sem Novator á 70%. Því félagi var úthlutað fyrr á þessu ári leyfi til rekstrar þriðju kynslóðar farsímakerfa. Undirbúningur þeirrar starfsemi er þegar hafinn undir merkjum félags sem heitir P 4. Stefnt er að þjónusta þess fyrirtækis hefjist seint á næsta ári.

Björgólfur Thor Björgólfsson segir ástæður tilboðsins þær að honum lítist vel á pólska fjarskiptamarkaðinn og að hann vilji styrkja tengslin á milli Netia og hins nýja fyrirtækis P 4.

?Pólverjar eru ein af stórþjóðum Evrópu. Hagkerfið er í örum vexti og notkun farsímaþjónustu eykst þar hröðum skrefum. Pólski símamarkaðurinn og Netia fyrirtækið falla vel að langtíma fjárfestingastefnu minni og Novators. Við höfum þegar talsverða reynslu af fjárfestingum í fjarskiptafyrirtækjum í Mið- og Austur Evrópu og við teljum að hún muni nýtast okkur í Pólandi."

Netia var stofnað árið 1990 og hóf starfsemi á símamarkaði í Pólandi árið 1994. Félagið í dag er með um 30% hlutdeildar á fastlínumarkaði í Pólandi og hefur forystu á sviði virðisaukandi símaþjónustu þar í landi. Stærsti hluthafi við stofnun félagsins var TeliaSonera en það félag seldi 48% hlut sinn árið 2003 þegar Netia var endurfjármagnað. Netia er nú í dreifðri eign og hafa enskir fjárfestingasjóðir forystu í félaginu um þessar mundir.

Björgólfur Thor og Novator eiga þegar verulegra hagsmuna að gæta á fjarskiptamarkaði í Finnlandi, Tékklandi, Búlgaríu og Grikklandi auk Pólands.