Búlgarska símafyrirtækið Bulgarian Telecommunications Company (BTC) hefur lagt til að arðgreiðslur til hluthafa verði 184,8 milljónir evra fyrir árið 2005, sem samsvarar um 16,7 milljörðum íslenskra króna, segir í tilkynningu frá félaginu.

Eignarhaldsfélagið Viva Ventures er stærsti hluthafinn í BTC og tryggði Novator Telecom Bulgaria, félag í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, sér kaupréttinn á öllu hlutafé Viva Ventures í nóvember síðastliðnum og þar með 65% hlut í BTC. Heildarverðmæti viðskiptanna nam rúmlega 100 milljörðum á þáverandi gengi.

Talsmaður Novator sagði í samtali við Viðskiptablaðið að arðreiðslur Viva Ventures, sem nema um 120 milljónum evra, eða tæpum 11 milljörðum, muni renna inn í rekstur eignarhaldsfélagsins. Novator á því ekki rétt á arðgreiðslunum þar sem félagið hefur enn ekki klárað kaupin á Viva Ventures.

Viva Ventures var stofnað af breska fjárfestingasjóðnum Advent International til að halda utan um 65% hlut félagsins og annarra fjárfesta í BTC, sem keyptur var fyrir 230 milljónir evra (21,8 milljarðar íslenskra króna) árið 2004. Fjárfestahópurinn samþykkti einnig að fjármagna viðhald og endurskipulagningu á fjarskiptaneti BTC fyrir einn milljarð evra, eða 90,4 milljarða króna. Talsmaður Novator sagði framkvæmdirnar á áætlun.

Þegar BTC var einkavætt árið var samið um að Advent myndi eiga 65% hlutinn í félaginu óskiptan þangað til í júní árið 2007. Einnig voru skilyrði um að félagið myndi eiga ráðandi hlut í BTC í fimm ár frá kaupdegi. Heimildarmenn Viðskiptablaðsins segja að Novator Telceom Bulgaria hafi átt í viðræðum um að þessum kvöðum verði aflétt. Björgólfur Thor tók þátt í kaupunum á BTC á sínum tíma, en Advent hefur hins vegar alltaf verið skráð fyrir hlutnum.

Fjárfestingabankinn Citigroup og Landsbanki Íslands hafa samþykkt að sölutryggja um 500 milljóna evra sambankalán (45,2 milljarðar íslenskra króna) til að fjármagna að hluta kaup Novators, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins.