Viðræður eiga sér nú stað milli sænska símafyrirtækisins TeliaSonera og pólska fjarskipafyrirtækinu P4 um kaup þess fyrrnefnda á pólska félaginu.

Þetta kemur fram á vef sænska blaðsins Dagens Industry.

P4 er í 75% eigu Novator, en félagið rekur þriðju kynslóðar farsímaþjónustu undir nafninu Play í Póllandi.

Talsmaður Novator í Svíðþjóð, Constantine Gonticas vildi ekki staðfesta þetta í samtali við DI.

Forstjóri TeliaSonera, Martti Yrjö-Koskinen vildi heldur ekki staðfesta fréttirnar í samtali við blaðið. Hann sagðist ekki kannast við félagið. Hann segir að ávallt sé þó verið að leita nýrra tækifæra á markaði en TeliaSonera, sem enn er í þriðjungseigu sænska ríkisins, hafi ákveðnu hlutverki að gegna og starfi eftir föstum reglum.

„Ef ég ætti að tjá mig um allar  getgátur gerði ég ekkert annað á daginn,“ sagði Yrjö-Koskinen í samtali við DI.

Frá því var greint í sumar að Play hafi á skömmum tíma hrist upp í samkeppninni á pólskum farsímamarkaði, enda er það í einna hröðustum vexti evrópskra símafyrirtækja.

Fyrir voru þrjú stór símafyrirtæki á pólskum markaði, öll tengd alþjóðlegum risum í geiranum, en Play hefur náði milljón viðskiptavinum til sín á innan við ári.

TeliaSonera er enn í þriðjungs eigu sænska ríkisins en til hefur staðið að einkavæða félagið.