Vogunar- og skuldasjóður Novators, Novator Credit Fund, hlaut í gærkvöldi árleg verðlaun tímaritsins Creditflux. Novador fær verðlaunin í flokknum „besti tækifærissjóðurinn“ („best credit opportunity fund“), en Creditflux er eitt virtasta og útbreiddasta tímarit Evrópu sem einbeitir sér að lánamörkuðum.

Novator Credit Fund var stofnaður árið 2005 og sýslar með 500 milljónir Bandaríkjadala (tæplega 46 milljarðar íslenskra króna). Sjóðurinn var sá eini af þeim sem tilnefndir voru í áðurnefndum flokki sem skilaði hagnaði á fyrri hluta ársins 2008. Sjóðsstjóri hans er Adrian Kingshott sem áður stýrði þeirri deild Goldman Sachs sem sá um fjármögnun skuldsettra yfirtaka.

„Það er sannarlega ánægjulegt að hljóta þessi virtu verðlaun og staðfesting á þeim góða árangri sem Novator hefur náð í markaðsviðskiptum á undanförnum misserum. Eins og flestum er kunnugt hafa aðstæður á alþjóðlegum fjármálamörkuðum verið sérstaklega óhagstæðar að undanförnu, enda hefur ríkt lánsfjárkreppa í efnahagslífi heimsins, og því hefur reynt á færni sérfræðinga okkar í markaðsviðskiptum,“ segir Björgólfur Thor Björgólfsson, eigandi Novators, í fréttatilkynningu frá félaginu.