Birgir Már Ragnarsson, meðeigandi í Novator Partners, segir að Novator sé ekki í samkeppni við fjárfestasjóðinn New Enterprise Associates um kaup á hlutabréfum í CCP. Í frétt Viðskiptablaðsins í dag var greint frá því að Beringer Finance á Íslandi hafi nokkur prósent í félaginu til sölu fyrir hönd eigenda, en áður hafði Viðskiptablaðið greint frá því að bæði NEA og Novator hefðu aukið hlutdeild sína í CCP, en Arctica Finance hefur verið að falast eftir bréfum í CCP fyrir hönd NEA.

„NEA hefur verið að kaupa undanfarið, en ekki við,“ segir Birgir í skriflegu svari til Viðskiptablaðsins. „Okkar kaup áttu sér stað áður en NEA kom að borðinu og við höfum ekki í hyggju að bæta frekar við okkur. Við höfum vísað áhugasömum á Arctica.“