Novator sjóðurinn (Novator Equities) hefur aukið hlut sinn í gríska fjarskiptafélaginu Forthnet sem er skráð í grísku kauphöllina. Félagið hefur nú síðast bætt við sig 10.000 hlutum og á nú 21,5% í félaginu. Novator sjóðurinn er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar. Eftir kaupin á félagið 3.624.074 hluti í Forthnet.

Novator hefur ekkert látið frá sér fara um kaup sín og að sögn Ásgeirs Friðgeirssonar, talsmanns félagsins á Íslandi, er engin breyting fyrirhuguð á því. Kaupin nú staðfesta áhuga Novators á félaginu sem er í síma- og gagnaflutningum og hefur félagið verið að bæta við sig jafnt og þétt. Yfirtökutilboð er í gangi á Forthnet af hálfu Intracom sem fjárfestir í tæknifyrirtækjum. Talsmenn Novator hafa skýrt tekið fram að þeir eru ekki þátttakendur í yfirtökutilboðinu og hafa ekki sýnt hug sinn til þess. Það hefur komið fram í tilkynningum þeirra til grísku kauphallarinnar. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins fylgjast starfsmenn Novator náið með hreyfingum á fjarskiptafyrirtækjum í Evrópu og telja þeir Forthnet mjög áhugavert fyrirtæki.

Gríski símtækjaframleiðandinn Intracom hefur gert hluthöfum Forthnet yfirtökutilboð og hyggst ná meirihluta. Ekki er vitað hvað Novator hyggst gera við hlutinn í Forthnet -- hvort félagið hafi áhuga á að taka virkan þátt í rekstri þess eða hvort Novator sé að nýta sér áhuga Intracom til þess að leysa út gengishagnað ef málin þróast þannig að Intracom geri yfirtökutilboð í Forthnet. Fjármálasérfræðingar telja að með kaupunum hafi Novator tafið áætlanir Intracom um að taka hugsanlega yfir Forthnet.

Hagnaður var af rekstri Forthnet á fyrsta ársfjórðungi miðað við tap á sama tímabili í fyrra. Hagnaður félagsins fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) jókst um 6,8% og nam 3,35 milljónum evra (266 milljónir íslenskra króna). Sölutekjur jukust um 7,7%. Markaðsvirði félagsins er talið vera um 124 milljónir evra (9,3 milljarðar íslenskra króna). Forthnet er frumkvöðull í internetþjónustu í Grikklandi.