Fjárfestingarfélagið Novator, sem er í eigu Björgólfs Thors Björgólfssonar, hefur aukið við hlut sinn í finnska símafélaginu Elisa í 14,88% úr 11,48%, samkvæmt tilkynningu til finnsku kauphallarinnar. Hluthafafundur verður hjá finnska símafélaginu 21. janúar en Novator óskar eftir að koma að tveimur stjórnarmönnum. Fjárfestingarfélagið er ekki með fulltrúa í stjórn.

Orri Hauksson, starfsmaður Novators í Finnlandi, segir í samtali við Viðskiptablaðið að fjárfestingarfélagið hafi verið að auka við hlut sinn í símafyrirtækinu á undanförnum vikum. "Það er ekki bara verið að safna [hlutum] fyrir þennan hluthafafund; þessi hluthafafundur mun líða og menn ætla sér að vera áfram [hluthafar]," segir hann.

Novator hefur verið með stöðu í Elisa frá 2005 og er stærsti hluthafi félagsins. Sá sem kemur næstur á eftir er með 4,9% hlut í símafyrirtækinu og sá sem kemur þar næst er með 1,8% hlut. Engu að síður hefur Novator aldrei verið með mann í stjórn. Á hluthafafundinum ætlar fjárfestingarfélagið að óska eftir því að fá tvo menn inn í stjórn félagsins. Þar sitja sex menn, en samkvæmt samþykktum félagsins mega þeir vera á milli fimm og níu.

"Það kom í ljós að það var ekki sameiginlegur skilningur á öllu innan forystu stjórnarinnar annars vegar og stærsta hluthafans hins vegar. Þess vegna var farið í það að biðja um auka hluthafafund og fá aðgang að stjórn. Hins vegar er ekki verið að biðja um einhverja byltingu á stjórninni. Vonandi verða sem flestir áfram af núverandi stjórnarmönnum," segir Orri.

Stjórnarformaður Elisa hefur gefið út að hann vilji ekki sitja áfram í stjórn símafélagsins, komi Novator inn manni. Orri segir því líklegt að það verði einhver uppskipting innan stjórnarinnar, komi Novator manni inn.

"Ég held að enginn vilji, og síst við, að þetta verði sérstaklega stór stjórn. Yfirleitt eru nú gæði stjórna í öfugu hlutfalli við stærð," segir Orri, spurður hvort líklegt sé að stjórnin verði stækkuð. Hann bendir þó á að sá möguleiki sé tæknilega fyrir hendi.

Samkvæmt tilkynningu til finnsku kauphallarinnar eykst hlutur Novators í Elisa í 15,45% úr 14,88% 15. febrúar, vegna framvirkra samninga. Skömmu seinna, 3. mars, minnkar hluturinn í 13,71%. "14,9% er sú staða sem skiptir máli fyrir hluthafafundinn," segir Orri. Þessar hræringar eru vegna mismunandi tímasetninga á framvirkum samningum.