Novator, stærsti hluthafinn í finnska sportvörurisanum Amer Sports, fagnar áformum um stjórnarskipti hjá félaginu sem samþykkt voru á aðalfundi Amer Sports fyrr í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Novator.

Fyrir aðalfund hafði Novator tilnefnt fjóra menn í stjórn félagsins en fyrir fundinum lá tillaga um að stjórn þess yrði óbreytt. Ekki kom til kosninga á aðalfundinum þar sem samkomulag náðist um að kjörnefnd félagsins hæfist þegar handa við skipan nýrrar stjórnar. Ný stjórn verður kosin á hluthafafundi sem haldinn verður fyrir júnílok.   Novator lítur svo á að með frumkvæði sínu og tilnefningu nýrra stjórnarmanna hafi það hrundið af stað ferli breytinga hjá Amer Sports sem komi öllum hluthöfum þess til góða, en rekstur félagsins undanfarin ár hefur verið talsvert undir væntingum.   Novator hefur óskað eftir að hluthafafundurinn, þar sem ný stjórn verður kosin, fari fram eigi síðar en 4. júní næstkomandi.