*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Innlent 3. mars 2020 14:51

Novator fjárfestir í rafhlaupahjólaleigu

Félag Björgólfs Thors Björgólfssonar kemur ásamt þremur erlendum félögum að 100 milljóna dollara fjármögnun Tier Mobility.

Ritstjórn
Björgólfur Thor Björgólfsson.
Aðsend mynd

Hlaupahjólaleigan Tier Mobility, sem býður þjónustu sína í 55 borgum í ellefu löndum, hefur að undanförnu tryggt sér 100 milljóna dollara (tæplega 13 milljarðar íslenskra króna) fjármögnun frá Novator, RTP Global, bandarísku fjárfestingafélagi og Mubadala. Fjármögnunin ku hafa verið í formi hlutafjár og lánsfjármagns. NY Times greinir frá þessu.

Tier Mobility hyggst nýta fjármögnunina til að stuðla að frekari vexti, með því að bjóða upp á þjónustu sína í enn fleiri borgum í Evrópu. 

Ekki er langt liðið frá því að hlaupahjólaleigan tryggði sér síðast fjármögnun, en í lok október á síðasta ári lagði Mubadala,fjárfestingafélag í eigu hins opinbera í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, til 60 milljónir dollara inn í rekstur Tier Mobility. Fjárfesting Novators, RTP Global og bandaríska félagsins nemur því samanlagt 40 milljónum dollara til viðbótar við fjárfestingu Mubadala.