Samkvæmt heimildarmanni pólska viðskiptablaðsins Puls Biznesu hefur Novator átt í viðræðum við sænska fjarskiptafélagið TeliaSonera um sölu á pólska farsímafyrirtækinu Play.

Constantine Gonticas, framkvæmdastjóri hjá Novator, sagði orðróminn ósannan þegar pólska blaðið bar orðróminn undir hann. Þá vildi talsmaður TeliaSonera ekki tjá sig um orðróminn.

Að sögn Ásgeirs Friðgeirssonar, upplýsingafulltrúa Novators hér á landi, hafa margir fjölmiðlar hent fréttina á lofti, sér í lagi á Norðurlöndunum, en enginn fótur sé fyrir henni.

Björgólfur Thor Björgólfsson, eigandi Novators, hefur ávallt sagt að fjárfestingin í Play sé til langtíma. Í lok júní sl. sagði Björgólfur Thor í viðtali við Viðskiptablaðið að mögulega yrði Play sett á markað á næstu misserum, en tók þó fram að Novator myndi áfram verða meirihlutaeigandi þótt til skráningar kæmi.

Ásgeir sagði orðróminn upprunninn á pólska markaðnum þar sem Play hefði tekist að höggva skarð í skildi keppinautanna á stuttum tíma, en félagið væri nú með 1,5 milljónir viðskiptavina eftir aðeins eitt og hálft ár í rekstri.

Þegar menn væru fyrirferðarmiklir á markaðnum sprytti oft og tíðum upp slíkur orðrómur.